Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 820  —  541. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (forgangsraforka).

(Eftir 2. umræðu, 15. des.)


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Til að tryggja raforkuöryggi til heimila og fyrirtækja, annarra en stórnotenda og þeirra sem hafa samið sérstaklega um skerðanlega notkun, ber vinnslufyrirtæki að tryggja forgangsraforku til þeirra auk flutningstapa í hlutfalli af framleiðslu sinni næstliðið ár af heildarframleiðslu. Magn forgangsraforku og flutningstapa skal leiðrétta árlega miðað við þróun raforkunotkunar heimila og fyrirtækja samkvæmt spá flutningsfyrirtækisins. Vinnslufyrirtækjum er þó heimilt að ráðstafa magni forgangsraforku samkvæmt ákvæði þessu sem er umfram framangreinda eftirspurn með öðrum hætti.
    Ráðherra er heimilt að fenginni tillögu Orkustofnunar og Landsnets að leggja fyrir seljendur forgangsraforku í heildsölu að veita forgang að kaupum á raforku til sölufyrirtækja sem selja til notenda, annarra en stórnotenda, og kaupum á flutningstöpum.
    Sölufyrirtæki skuldbinda sig til að hafa í forgangi til endursölu raforku til aðila skv. 1. málsl. 1. mgr.
    Heimild skv. 2. mgr. skal aðeins beitt ef nauðsynlegt er að grípa til skerðinga að mati Orkustofnunar og Landsnets og ljóst er að vægari úrræði duga ekki til, svo sem kaup á orku frá stórnotendum. Heimild til skerðinga skal vera tímabundin og ekki standa lengur en nauðsyn ber til og aldrei lengur en þrjá mánuði í senn. Verði gripið til heimildar skv. 2. mgr. skal ráðherra skila greinargerð með rökstuðningi til atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis innan fimm virkra daga frá því að heimildin er nýtt. Þá greinargerð skal jafnframt birta opinberlega.
    Orkustofnun skal rökstyðja beitingu heimildar skv. 2. mgr. sem skal vera tímabundin og ekki standa lengur en nauðsynlegt er. Sé gildistími lengri en sex mánuðir skal heimildin endurskoðuð á sex mánaða fresti.
    Ákvæði þetta gildir til 1. janúar 2025.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.